þriðjudagur, janúar 22, 2008

Hæ allir!
Gaman að heyra og sjá eitthvað frá ykkur :)
Best að byrja á hinum endanum... Það eru einhverjir sem ég hef ekki séð síðan í Afríkuferðinni góðu vorið 2005, þannig að ég byrja eftir hana. Þá fór ég að vinna á Vegagerðinni við veghönnun, hafði áður eytt tveimur sumrum þar í mælingum og því öllum hnútum kunnugur á þeim bænum ;)
Vann þar þangað til í ágúst 2006 þegar ég flúði land og fluttist til Berlínar til að læra þýsku. Á Vegagerðinni var mitt helsta verkefni að frumhanna Ofanbyggðarveg, sem verður ef til vill einhvern tíma lagður, ef vel viðrar. Upphaflega var planið að fara í master strax haustið 2006 í Berlín, en þeir vildu ekki sjá mig þar fyrr en ég kynni fleiri en þrjú orð í þýsku, þ.a. því var slegið á frest.
Ég bjó í Berlín þar til í lok febrúar 2007 og endaði dvölina meðal annars á því að fagna 25 ára afmæli mínu, eisa TestDaF (þýskupróf fyrir þá vitleysinga sem vilja stunda Háskólanám í Þýskalandi), fara til Amsterdam (snilld), München (snilld) og Köln (glatað pleis).
Þegar ég kom heim í byrjun mars 2007 fór ég eina viku til Akureyrar og mokaði nokkrum tonnum af kindataði út úr fjárhúsum foreldra minna... góð vika það!
Að því loknu fór ég að vinna á Línuhönnun við burðarþolsreikninga. Vann þar í hálft ár og líkaði vel. Svo trúlofaði ég mig í ágúst 2007... ekki bara einn og sjálfur samt... sú heppna heitir Ingunn og er norðlenskari en ég ef eitthvað er, en við þekktumst samt ekkert áður en við kynntumst :p
Í september 2007 fórum við Ingunn í interrail í einn mánuð og heimsóttum Austurríki, Slóveníu, Ítalíu, Vatíkanið, Frakkland, Mónakó, Spán (bara Katalóníu samt, náðum því miður ekki að fara nógu langt til að heimsækja Katrínu og Gumma), Sviss (hittum þar Beggu og Andrés... takk fyrir fæði og húsaskjól Begga og Andrés :D) og svo aftur Austurríki.
Að því loknu komum við okkur fyrir í Hannover í Þýskalandi þar sem við erum við nám eins og er. Ég er í master í burðarþoli, en ég er búinn að ákveða að klára námið heima í HÍ því það er aðeins of stór prósenta af fólkinu hérna fyrir utan þolmörk mín þegar kemur að hálfvitaskap. Ef ykkur dettur í hug að fara til Þýskalands að læra skuluð þið velja staðinn vel og ekki velja Hannover eða nágrenni, nema að vita hvað þið eruð að fara út í.
Það er sem sagt stefnt á heimflutning til Reykjavíkur í ágúst á þessu ári og sér maður vonandi eitthvað meira framan í ykkur í framhaldi af því.
Þá er lítið eftir annað en að kveðja og óska mér góðs gengis í prófunum sem byrja eftir 12 daga. Bæjó spæjó.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Gleðilegt ár allir saman....
djöfull var nú gaman að hitta alla þarna um daginn hjá Kenna..algjör snilld.
Og það verður framhald á snilldinni núna um helgina í partí hjá Steinu Völu......
hún á afmæli 8. jan og því er þetta svona forafmælisveisla á laugardagskvöldið.
Hlakka til að hitta ykkur snillingana aftur....áður en allir halda hjem til Köben.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Gott framtak þetta;) Einstaka fólk veit ég bara ekkert hvað er að bauka þessa dagana.

Staðan hjá mér er sú að ég er enn staðsett á Spáni að læra mælingar eða nánar tiltekið „Ingeniería Cartográfica, Geodésica y Fotogrametría“. Fór hingað sem skiptinemi í fyrra og leist svo vel á þetta að stefnan er að klára skólann hérna. Þarf samt B.Sc. í mælingaverkfræði til að mega klára mastersnámið svo ég er hálfnuð með mastersnám en komin aftur í B.Sc. nám ;)
Ég er enn gift karllufsunni minni - og enn mun betur gift en hann;). Við sáum fram á að þurfa einhvern til að sjá um okkur í ellinni svo einn erfingi var hannaður og framleiddur fyrr á árinu. Þar sem tölur hafa alltaf heillað var útgáfudagurinn 05. 06. 07 ;) akkurat í upplestrarfríiunu í lok annar áður en prófin byrjuðu. Annars er Gummi í barneignarorlofi, heimavinnandi og í fjarnámi.

Komum heim í sumar og skottan fékk nafnið Bergrós Ásta. Skellti með mynd af hönnunarverkinu;)
Annars verðum við hérna áfram á Spáni, minnst kosti þangað til ég fæ félagann Filipe prins til að skrifa upp á útskriftarskírteini fyrir mig.
Við verðum í Afríku um jólin, nánar tiltekið í Marokko og mér skilst að Baggalútur verði skammt undan. Eigum væntanlega eftir að skála fyrir síðustu Afríkuferð;)


En best að nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hafið það gott um jólin, étið vel (maður verður nú að fylla út í buxurnar;)), sofið frameftir og njótið þess að vera í fríi! Það ætla ég mér minnst kosti. Annars sjáið þið hérna til hliðar sjálvirku vekjaraklukkuna... En Gummi er svo sem enn á launum við að passa krakkann sinn ;) hehehe...

¡ Feliz Navidad y Próspero Año Nuevo !

miðvikudagur, desember 12, 2007

Mér skilst að allnokkrir komi heim til Íslands þessi jól. Er þá ekki tilvalið að hittast í hádegisátu föstudaginn 28. desember. Ég legg til að fólk mæti 11:45 á American Style í Skipholti þann drottins dag!

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

GÁB-arinn fékk þá flugu í höfuðið þar sem við átum kjúklingasúpu kvöldsins að reyna að fá sem flesta Afríkufara og VR-inga til að henda inn smá pistli á síðuna því við vorum að átta okkur á því að það er ótrúlega mikið af fólki sem við erum ekki alveg klárir á hvað er að bralla þessa dagana. Hálfur bekkurinn hefur náttúrulega verið á ímyndunarfylleríi í Köben síðasta árið eða tvö en svo veit maður ekkert hverjir eru komnir heim, á leiðinni heim o.s.frv. Það væri líka magnað að fá að vita nöfnin á nýjustu fjölskyldumeðlimum, hvar fólk vinnur, hvort það sé búið að fjárfesta í íbúð eða hangir í kjallaranum hjá M&P. Þetta er náttúrulega algjör bjartsýni að fólk kíki hingað enda höfðum við GÁB hvorugir heimsótt síðuna í fleiri mánuði. Ég ríð á vaðið.
Flutti út til Seattle í september 2005 og kláraði master í burðarþoli í desember 2006. Búinn að vinna á verkfræðistofunni CPL í downtown Seattle síðan þá og búinn að vera á föstu með Mary Frances (ekki kaþólsk og ekki nunna, allt klassískir brandarar) í bráðum 2 ár. Visað mitt rennur út í lok desember og þótt stofan vilji ólm sækja um visa fyrir mig gæti ég ekki byrjað að finna fyrr en í október '08 þ.a. það er allt opið núna. Fer til Íslands fyrir jólin og verð væntanlega á klakanum í nokkra mánuði og vona að einhver stofa vilji fá mig í þann stutta tíma. Verð væntanlega í kjallaranum hjá gamla settinu nema maður taki nett Afríku flashback og crashi hjá Borgarstjóranum í nokkra mánuði.
Vona að einhver nenni að gefa sér tíma í þetta, hvort sem það er ein setning í commentakerfinu eða ný færsla.
Bestu kveðjur og vonandi sé ég sem flesta á klakanum um jólin og á nýju ári.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Var að skoða myndir frá Afríku um daginn. Hress gaur hann Víkingur...

fimmtudagur, október 11, 2007

FÖSTUDAGSÁTA ! !!!!

Chili's ..einhversstaðar í nágrenni við strikið (nó vörrís, Gunni ratar allt ;)

Föstudaginn 26. Október ..kl..12 ??

Hver er til?