laugardagur, júlí 09, 2005

Þar sem við höfum ekki öll jafn lítið að gera í vinnunni og Tóta og erum því ekki búin að koma Afríkumyndunum okkar á netið vil ég stinga upp á því að við höldum myndakvöld við tækifæri. Um helgar eru alltaf allir í útilegum og sumarbústöðum og bókhlöðum og svoleiðis rugli þannig að það er eflaust best að taka einhvern virkan dag í þetta. Allar uppástungur um tímasetningar eru vel þegnar. Samt ekki fyrr en er búið að safna saman myndum til að skoða.
Þorbjörg var búin að bjóðast til þess að safna saman svona “best of” myndum frá öllum og setja á disk. Þannig að allir þurfa að fara að skoða myndirnar sínar, Íris líka, og finna svona ca. 50 bestu myndirnar (ef ykkur finnst það of mikið segið þá til). Ég held að allir séu sammála um það að við erum með það nokkuð á hreinu hvernig súlur, pýramídar, fílar og sebrahestar líta út svo að þannig myndir verða að vera alveg einstaklega vel heppnaðar til að komast í “best of” pakkann.
Það er ekkert stress að gera þetta alveg á stundinni en Gaui, Laila og Andrés þurfa samt örugglega að setjast fljótlega við skannann með bunkana sína ef þetta á að vera tilbúið fyrir jól. Svo dembum við þessu bara öllu á Þorbjörgu. Gummi, Gummi og Gunni ef þið eruð búnir að klippa til einhver vídeó væri beisik að kíkja á þau líka.
Mín hugmynd er að við hittumst í stofunni okkar í VR einhvern tíma þegar allir eru búnir að vinna (t.d. klukkan svona átta) og nýtum okkur hátæknilega skjávarpaaðstöðu sem þar er í boði. Þegar við erum búin að hlæja úr okkur lungun þar getum við svo rölt niður á garða heim til mín og fengið okkur einn eða fimm öllara og snúið sófanum mínum í átt að Mecca. Ég vil minna á að strætó gengur alveg heillengi á virkum dögum og það er alltaf hressandi að vera pínu þunnur í vinnunni svo slíkar afsakanir eru ekki ásættanlegar. Drykkjulæti eru líka leifileg þar sem ég flyt hvort sem er út eftir nokkrar vikur.
Ég legg til að heiðursgestur myndakvöldsins verði Þorsteinn Þorsteinsson sem eins og allir vita fór á kostum í ferðinni. Svo eru auðvitað allir vitleysingarnir sem skrópuðu í ferðinni velkomnir líka að sjá hvað við hinir vitleysingarnir gerðum í Afríku. Það verður ekki strangt dress code en stelpur verða að vera með berar axlir og fara inn á skónum.
Að sjálfsögðu er skyldumæting hjá öllum Afríkuförum, og ekki væri verra að tímasetja þetta þannig að hetjur sem eru að baka drullukökur á Kárahnjúkum, mæla flugvelli í Kósóvó eða annað slíkt geti mætt líka.
Endilega segið það sem ykkur liggur á hjarta í kommentin, Tóta, hérna er tilvalið að rífast aðeins. Annars getum við spjallað um þetta líka á þriðjudaginn þegar við förum að dreifa blöðum upp í vindinn. Látið endilega fólk sem les ekki bloggið vita af þessu.
Hasta la pasta

Engin ummæli: